Innlent

Þriðja leið Hreyfingarinnar rædd á Alþingi

Þór Saari mælir fyrir frumvarpinu.
Þór Saari mælir fyrir frumvarpinu.
Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar mælir í dag fyrir Þriðju leiðinni, frumvarpi flokksins um stjórn fiskveiða. Eftir það mun málið ganga til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Í tilkynningu frá Hreyfingunni segir að nefndin ætli að standa fyrir kynningu á þeim sjávarútvegsmálum sem hún fær til meðferðar og í framhaldi af því ætla þingmenn Hreyfingarinnar að leggja fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórn fiskveiða „þar sem valið standi á milli óbreytts ástands, leiðar ríkisstjórnarinnar eða leiðar Hreyfingarinnar."

Þá segir ennfremur að markmið Þriðju leiðarinnar sé að færa úthlutun á aflaheimildum úr sameiginlegum fiskveiðiauðlindum þjóðarinnar til þess horfs sem hún var í áður en framsal aflaheimilda kom til árið 1991, „en fram að þeim tíma hafði úthlutunin byggt á veiðireynslu til margra ára og var því bæði sanngjörn og réttlát. Með frumvarpinu er einnig reynt að tryggja að aflaheimildir fari til þeirra byggða sem þeim var upprunalega úthlutað til. Miðað er við að aflahlutdeildin sé nýtt í viðkomandi sveitarfélagi. Þó er sveigjanleiki í nafni hagkvæmni tryggður þar sem aflahlutdeildin er framseljanleg þegar hagkvæmnisrök gefa tilefni til. Með því móti verður réttur íbúa sjávarbyggða á Íslandi til sjósóknar tryggður eins og verið hefur frá örófi alda sem eini raunverulegi grundvöllur tilvistar flestra þeirra. Auk þess stuðlar frumvarpið að fjárhagslegri endurskipulagningu útgerðar á Íslandi í kjölfar efnahagshrunsins.“



Frumvarpið má sjá í heild sinni hér.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×