Innlent

Steingrímur segir að kynslóð hans hafi brugðist

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að hans kynslóð stjórnmálamanna hafi brugðist í aðdraganda kreppunnar á Íslandi og hún megi ekki bregðast þjóðinni aftur í uppbyggingunni. Í fyrirlestri á Írlandi sagði hann nýja ríkisstjórn landsins eiga að búa sig undir að verða óvinsæl vegna nauðsynlegra aðgerða.

Steingrímur flutti fyrirlestur í Trinity háskóla í Dyflinni á dögunum þar sem hann fór yfir sögu efnahagshrunsins á Íslandi. Hann var tregur til að ráðleggja nýrri ríkisstjórn Írlands, en sagði þó að hún ætti að búa sig undir fáa hveitibrauðsdaga. Hún verði að grípa til aðgerða sem muni gera hana óvinsæla, að öðrum kosti væri hún ekki að sinna starfi sínu.

Haft er eftir ónafngreindum aðstoðarmanni Steingríms að flokkur hans sé vinstri flokkur og þegar ráðherrann og aðstoðarfólk hans fór á fyrstu fundina með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hafi þeir haldið að þeir myndu hitta fyrir andskotann sjálfan. Það hafi hins vegar ekki verið raunin. Steingrímur segir kynni sín af sjóðum hafa komið sér þægilega á óvart.

Þegar starfsmenn sjóðsins hafi séð að íslenskum stjórnvöldum var alvara og þau hafi fylgt eftir áætlunum sjóðsins, hafi sjóðurinn orðið sveigjanlegri í samskiptum sínum við Íslendinga. Hann sagði mikilvægast að vinna traust sjóðsins og vinna með honum, standa við gefin loforð, vera raunsær varðandi stöðu mála og tala hreint út um hlutina. Allra mikilvægast væri að setja stjórnmálin til hliðar.

Blaðamaður á írsku heimasíðunni The Post, segir að Steingrímur eigi sér óvenjulegan feril. Hann hafi verið bóndi, vörubílstjóri og jarðfræðingur áður en hann fór í stjórnmálin. Haft er eftir honum að honum sé slétt sama hvað verði um hann sjálfan bara ef takist að koma þjóðinni út úr kreppunni. Hann segir að hans kynslóð stjórnmálamanna hafi brugðist í aðdraganda hrunsins, þó ekki hann persónulega, þar sem hann varð ekki ráðherra fyrr en eftir hrun. Hans kynslóð megi ekki bregðast þjóðinni aftur í uppbyggingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×