Fótbolti

Mourinho áfrýjar úrskurði UEFA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Jose Mourinho hefur ekki gefist upp í baráttu sinni við Knattspyrnusamband Evrópu sem dæmdi hann í fimm leikja keppnisbann í apríl síðastliðnum.

Mourinho fékk þunga refsingu fyrir að úthúða dómaranum í leik sinna manna í Real Madrid gegn Barcelona í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Nú ætlar hann að fara með mál sitt fyrir alþjóðlegan áfrýjunardómstól íþróttamála í Frakklandi og reyna að fá úrskurðinum hnekkt.

Síðan að Mourinho var dæmdur í bannið hefur hann ekkert tjáð sig í fjölmiðlum - þar til í gær.

„Nú er liðinn rúmur mánuður og ég veit enn ekki af hverju ég var dæmdur í þetta bann. Ég held að ég eigi að minnsta kosti rétt á að fá að standa fyrir mínu máli og verja minn málstað. Ég mun því fara með þetta mál eins langt og ég kemst,“ sagði Mourinho í útvarpsviðtali á Spáni í gær.

Mourinho sagði einnig í viðtalinu að þeir Gonzalo Higuain og Karim Benzema væru ekki á leiðinni frá Real Madrid þrátt fyrir sögusagnir um hið gagnstæða. Þá hefði hann áhuga á að fá Emmanuel Adebayor, sem var í láni frá Manchester City á síðari hluta tímabilsins, aftur til félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×