Erlent

Þjálfa hrægamm til þess að leita að líkum

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Hrægammur. Myndin er úr safni.
Hrægammur. Myndin er úr safni.
Hrægammurinn Sherlock hefur gengið til liðs við þýsku lögregluna. Að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins mun hann vera betri en nokkur hundur eða lögreglumaður í að finna lík á stórum opnum svæðum.

Sherlock er nú í þjálfun í Walsrode fuglagarðinum í Norður-þýskalandi. Þjálfarar hans og fulltrúar lögreglunnar segja haukfrá augu hrægammsins og næmt lyktarskyn hans gera Sherlock tilvalinn í leit að líkum og í raun henta betur en leitarhunda þegar leitarsvæðin eru stórgrýtt eða gróðri vaxin.

Þýskir fjölmiðlar hafa fjallað um málið en dagblaðið Berliner Morgenpost segir það augljóst að þó svo að Sherlock eigi auðvelt með að finna lík gæti hann vel byrjað að kroppa í þau áður en lögreglan kemst á vettvang.

Eftir helgi munu tveir hrægammar til viðbótar ganga til liðs við þýsku lögregluna, þau Miss Marple og Columbo. Að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins þykir betra að hafa þrjá fugla enda leiti hrægammar að fæði í hópum.

Þá er haft eftir Reiner Hermann, lögreglufulltrúa í Hanover sem hefur umsjón með verkefninu, að bæði austurríska og svissneska lögreglan hafi haft samband við sig og vilji kaupa þjónustu hrægammana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×