Innlent

Hylmingamanni sleppt - fimm mánaða gæsluvarðhald of langt

Fangaklefi. Myndin er úr safni.
Fangaklefi. Myndin er úr safni.
Hæstiréttur felldi gæsluvarðahaldsúrskurð yfir karlmanni á þrítugsaldri úr gildi í gær. Maðurinn var dæmdur í vikunni í 15 mánaða óskilorðsbundið fangelsi í héraðsdómi Reykjaness fyrir þrjátíu hylmingarbrot vegna 25 innbrota.

Brotin áttu sér stað á síðastliðnum tveimur árum en meðal annars var stolið úri sem kostaði hálfa milljón króna. Þýfið fannst á heimili mannsins.

Maðurinn, sem er af erlendu bergi brotinn, hélt úti nákvæmu bókhaldi yfir hlutina sem var stolið og verð þeirra. Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að brotin voru gríðarlega umfangsmikil og vel skipulögð.

Maðurinn, sem var handtekinn í febrúar síðastliðnum, hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald þá þegar. Að mati lögreglu voru yfirgnæfandi líkur fyrir því að hann myndi halda áfram afbrotum gengi hann frjáls ferða sinna og því væri nauðsynlegt að hann sæti áfram í gæsluvarðhaldi.

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að maðurinn hafi sætt gæsluvarðhaldi í fjóra mánuði og verði þeir nær fimm ef hinn kærði úrskurður verður staðfestur.

Kjósi maðurinn að nýta rétt sinn til áfrýjunar er ennfremur ljóst að dómur í máli hans mun ekki ganga í Hæstarétti fyrr en í fyrsta lagi í september 2011. Því var úrskurðinum hnekkt en Héraðsdómur Reykjaness hafði fallist á gæsluvarðhald yfir manninum til 29. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×