Innlent

Gögn sem sýna vænleg setlög á Drekasvæðinu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Olíuleitarfyrirtæki hefur fundið setlög á Drekasvæðinu sem gætu falið í sér mikla möguleika á olíu og gasi. Gögnin verða kynnt á fundi í Noregi eftir helgi.

Íslensk stjórnvöld hafa tilkynnt að annað olíuleitarútboð á Drekasvæðinu hefjist þann 1. ágúst, eftir tæpa tvo mánuði. Til að vekja áhuga olíuiðnaðarins á útboðinu hefur Orkustofnun boðað til kynningarfundar í Stafangri, höfuðborg norska olíuiðnaðarins, á þriðjudag.

Þar mun fulltrúi frá fyrirtækinu CGG Veritas, sem er leiðandi í heiminum í olíuleit með hljóðbylgjumælingum, kynna rannsóknargögn sem það telur lofa góðu um hvers vænta megi á Drekasvæðinu. Fyrirtækið, sem er með starfsemi um allan heim og höfuðstöðvar í Frakklandi, notaði nýja tölvutækni til að endurvinna hljóðbylgjumælingar frá árunum 2001 og 2008.

Í kynningargögnum, sem fyrirtækið hefur látið gera, eru sýnd dæmi sem bendi til að þarna séu setlög sem geymi kolvetni, það er olíu og gas. Hringir eru dregnir utan um það sem þykir mest spennandi og í skýringartexta segir:

"Við höfum fundið möglega kolvatnsþætti innan brotabeltisins. Þar á meðal mögulegan misgengistengdan aurburð eða grunnar þrær innan hallandi misgengisblokka." Síðar segir: "Á óvirka eldfjallasvæðinu hafa hugsanlega fundist neðansjávaraurkeilur sem, ef þær reynast sandríkar og lokaðar undir jarðlögum, gætu boðið mikla möguleika." Ennfremur segir í texta: "Ljósir blettir á hljóðbylgjumyndinni og holur á sjávarbotninum benda til að kolvatnsefni geti verið til staðar í dældinni."

Kynningarfundurinn í Stafangri á þriðjudag er fyrsta vísbending um áhuga á Drekaútboðinu en samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun hafa fulltrúar frá átta olíufélögum skráð sig til þátttöku. Til samanburðar mættu fulltrúar frá fimmtán olíufélögum á ráðstefnu sem haldin var í Reykjavk haustið 2008 í aðdraganda fyrsta Drekaútboðs Íslendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×