Innlent

Mælt fyrir stóra kvótafrumvarpinu á morgun

Hafsteinn Hauksson skrifar
Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason.
Fyrstu umræðu um minna kvótafrumvarp sjávarútvegsráðherra lauk á Alþingi skömmu fyrir klukkan tvö í nótt. Hann mælir fyrir stærra frumvarpinu á þingfundi á morgun.

Minna kvótafrumvarp Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra var lagt fram á mánudag, en mikill tími hefur verið lagður undir málið við fyrstu umræðu síðan þá. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á núgildandi lögum um stjórn fiskveiða, en þar er bæði að finna tímabundin ákvæði sem gilda á yfirstandandi fiskveiðiári og því næsta, auk nokkurra almennra breytinga á lögunum.

Meðal þess sem lagt er til í frumvarpinu eru breytingar á fyrirkomulagi strandveiða, á fyrirkomulagi þess hvernig aflaheimildum er úthlutað til minni byggðarlaga, auk þess sem veiðigjald hækkar.

Á þriðjudag og miðvikudag var frumvarpið rætt fram undir miðnætti, en um tíu mínútum fyrir tvö í nótt lauk fyrstu umræðu um málið. Það gengur nú til annarrar umræðu, og sjávarútvegsnefndar alþingis.

Á morgun mælir sjávarútvegsráðherra svo fyrir stærra kvótafrumvarpi sínu, en þar er um að ræða heildarlög um stjórn fiskveiða.

Á morgun er sömuleiðis á dagskrá þingsins kvótafrumvarp Hreyfingarinnar, en Þór Saari mælir fyrir frumvarpinu. Hreyfingarfrumvarpið gerir ráð fyrir að aflaheimildum verði framvegis úthlutað á grundvelli uppboða, sem sveitarfélög annast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×