Innlent

Eldri borgarar vilja ekki skattleggja lífeyrissjóðina

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Stjórn Landssambands eldri borgara skorar á Alþingi að samþykkja ekki ákvæði í frumvarpi um að skattleggja lífeyrissjóðina. Með því væri verið að skerða kjör lífeyrisþega og öryrkja í framtíðinni.

Stjórnin telur áform ríkisstjórnar um að skattleggja lífeyrissjóðina um einn komma sjö milljarða króna beina aðför að eldri borgurum og öryrkjum. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður LEB, segir að um sé að ræða eignaupptöku lífeyrisþega því lífeyrissjóðir eigi ekki eignir, heldur safni þeir upp réttindum fyrir lífeyrisþega til greiðslu síðar.

Hún segir það forkastanlegt að þetta skuli vera gert á sama tíma og nýbúið er að semja um að lífeyrisþegar fái sömu kjarabætur og samið var um á almennum vinnumarkaði.

„Þarna finnst mér að sé verið að taka með annarri hendinni það sem á að veita með hinni. Það er greinilegt að þarna á að fá fjarmagn frá lífeyrissjóðunum og það verður bara til þess að skerða kjör okkar eldriborgara í framtíðinni og örorku og lífeyrisþega. Sem eru nú ekki góð fyrir og er búið að vera að reyna að berjast fyrir í mörg ár samanber nýjustu könnunum um framfærslu,“ segir Jóna Valgerður.

Stjórnin hefur rætt við forstjóra lífeyrissjóða og eru þeir allir sammála um að ekki hafi verið samið um skattlagninguna í kjaraviðræðunum. Jóna Valgerður undrast þessa ákvörðun ríkisstjórnar.

„Þarna er verið í raun og veru að þrískattleggja sömu peningana, því það á að taka 0,13%  af iðgjöldum, það á að taka 1,7 milljarða af eignum lífeyrissjóðanna, sem ég tel nú að séu ekki eignir þeirra heldur eignir okkar lífeyrisþeganna. Og svo er þetta skattlagt þegar við fáum þetta greitt sem lífeyri,“ segir Jóna Valgerður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×