Innlent

Blaðamenn skrifuðu undir kjarasamning

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, segir að samningarnir feli í sér verulega kjarabót. Mynd/ Stefán.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, segir að samningarnir feli í sér verulega kjarabót. Mynd/ Stefán.
Blaðamannafélagið gekk frá nýjum kjarasamningi við Samtök atvinnuífsins fyrr í dag.  Samningurinn gildir frá 1. júní að telja og er í öllum aðalatriðum samhljóða þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði að undanförnu og háður sömu fyrirvörum og þeir.  Laun hækka um 4,25% 1. júní, 3,5% 1. febrúar næstkomandi og síðan um 3,25% ári síðar. 

Fimmtíu þúsund króna eingreiðslu ber að greiða ekki síðar en 1. júlí næstkomandi og 10 þúsund og 15 þúsund króna álag er á orlofs- og desemberuppbót í ár.  Þá eru verulegar hækkanir gerðar á líf- og slysatryggingum blaðamanna og nefndir settar á laggirnar til þess að fara frekar yfir tryggingamálin og vinnnutíma- og vaktamál.  Nefndirnar eiga að ljúka störfum fyrir 1. október næstkomandi. 

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélagsins, segir að kjarasamningarnir nú séu gerðir við erfiðar aðstæður á fjölmiðlamarkaði og í íslensku atvinnulífi.  Þeir feli engu að síður í sér verulega kjarabót og byggi á þeim forsendum að kaupmáttur aukist hér á næstu árum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×