Innlent

Rannsóknin grundvallast á fleiri vísbendingum en kæru FME

Lýður Guðmundsson var aðaleigandi Exista.
Lýður Guðmundsson var aðaleigandi Exista. Mynd/Haraldur
Rannsókn sérstaks saksóknara á tryggingarfélaginu VÍS grundvallast ekki aðeins á kæru Fjármálaeftirlitsins heldur nýjum vísbendingum sérstaks saksóknara. Skýrslutökur yfir sakborningum halda áfram í dag.

Yfirheyrslur hjá sérstökum saksóknara í tengslum við rannsókn á málefnum VÍS halda áfram í dag. Ólafur Þór Haukssonn, sérstakur saksóknari, sagði við fréttastofu í morgun að yfirheyrslur gengu vel. Aðspurður hvort sakborningar hefðu verið samvinnuþýðir við skýrslutöku sagði Ólafur Þór að embætti hans gæti ekkert tjáð sig um það sem fram færi í yfirheyrslum. Hann sagði ágætis framvindu í rannsókninni.

Þungamiðjan í rannsókninni eru meint brot á lögum um vátryggingarstarfsemi, og þá er grunur um umboðssvik. Efnislega er um að ræða óhóflegar og óeðlilegar lánveitingar VÍS til tengdra aðila, m.a til eigandans eignarhaldsfélagsins Exista. Meðal þess sem er til rannsóknar eru lánveitingar árin 2008-2010, eftir bankahrunið.

Umboðssvik virðast vera rauði þráðurinn í langflestum málum sem eru til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara. Fjöldi bankastjórnenda í Svíþjóð og Finnlandi voru sakfelldir eftir bankahrunið í þessum löndum á tíunda áratug síðustu aldar fyrir brot sem samsvara umboðssvikum, en þeir höfðu veitt stór lán án trygginga. Fá fordæmi eru hins vegar til hér á landi. Exeter-málið, sem nú er í ákærumeðferð fyrir dómi, er því mikilvægur prófsteinn fyrir aðrar rannsóknir sérstaks saksóknara, eins og rannsókn á málefnum VÍS.

Lýður Guðmundsson sem var aðaleigandi Exista, Erlendur Hjaltason fyrrverandi forstjóri Exista, Bjarni Brynjólfsson sem var framkvæmdastjóri eigin viðskipta hjá Existu og Guðmundur Örn Gunnarsson sem hefur verið forstjóri VÍS voru færðir til skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara í gær. Húsleit var jafnframt gerð hjá VÍS og Existu í dag vegna málsins. Alls hafa tíu verið yfirheyrðir í hjá embættinu í gær og í dag.


Tengdar fréttir

Yfirheyrslum lokið

Yfirheyrslum vegna rannsóknar embættis sérstaks saksóknara á málefnum VÍS er lokið í bili. Ekki verður farið fram á fjórmenningarnir sem handteknir voru í dag verði úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Þetta staðfesti Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í samtali við fréttastofu. Yfirheyrslum lauk um áttaleytið.

Guðmundur og Erlendur látnir lausir

Guðmundur Örn Gunnarsson, fyrrverandi forstjóri VÍS, og Erlendur Hjaltason, fyrrverandi forstjóri Existu, hafa verið látnir lausir úr haldi lögreglu. Þeir voru færðir til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara í dag vegna rannsóknar embættisins á lánveitingum VÍS á árunum 2007-2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×