Erlent

Vanmátu hættuna á flóðbylgjum

Japanir vanmátu hættuna á því að flóðbylgja gæti skollið á kjarnorkuverum landsins líkt og gerðist í kjölfar jarðskjálftans sem reið yfir þann ellefta mars síðastliðinn. Þetta kemur fram í drögum að nýrri skýrslu sem Alþjóðakjarnorkumálastofnunin er að gera.

Geislavirkni greinist enn við Fukushima kjarnorkuverið og í skýrsludrögunum eru yfirvöld gagnrýnd fyrir að gera ekki ráð fyrir því að flóðbylgja gæti skollið á verinu og eyðilagt varaaflstöðvar þess. Fukushima verið liggur við sjóinn og þrátt fyrir að stór jarðsprunga sé úti fyrir ströndinni er sjóvarnargarðurinn fyrir framan verið aðeins sex metra hár. Hæðin á öldunni sem skall á verinu var hinsvegar um fjórtán metrar.

Þrátt fyrir að sérfræðingar hafi í gegnum árin ítrekað bent á hættuna af flóðbylgju var ekkert gert til þess að styrkja varnirnar varnirnar. Skýrslan leiðir einnig í ljós að hættan á flóðbylgju hafi einnig verið vanmetin við fleiri kjarnorkuver í landinu og eru yfirvöld hvött til að bregðast við því hið snarasta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×