Erlent

Um 35 þúsund börn á flótta í Súdan

Mynd/AP
Aukin átök í Súdan hafa hrakið tæplega 35 þúsund börn brott frá heimilum sínum undanfarnar tvær vikur. Þetta er mat Barnaheilla – Save the Children sem vara við því að mörg þeirra barna sem orðið hafa viðskila við fjölskyldur sínar, eigi mjög á hættu að verða fyrir alvarlegu andlegu áfalli og misnotkun.

 

Nær allir íbúar Abyei-bæjar hafa flúið skothríð, eldsvoða og gripdeildir. Óttast er að átökin á milli liðsmanna Norður- og Suður-Súdan eigi eftir að breiðast enn frekar út. Börn á flótta standa frammi fyrir margvíslegum hættum, svo sem að dragast inn í átök eða verða vitni að hryllilegum atburðum. Barnaheill – Save the Children óttast að börn, sem orðið hafa viðskila við foreldra sína og eru ráðvillt og hrædd, verði auðveld fórnarlömb kynferðislegrar og líkamlegrar misnotkunar eða að þau verði þvinguð til herstarfa. Því lengur sem átökin vara, þeim mun meiri er hættan fyrir börnin.

 

Þessi nýi straumur flóttamanna nú bætist við þá mannúðarkreppu sem ríkt hefur í Suður-Súdan, þar sem margt fátækasta fólk heimsins býr. Á síðustu mánuðum hafa hundruðir þúsunda íbúa úr suðri, sem búsettir voru í Norður-Súdan, snúið aftur heim til lands forfeðra sinna, í tæka tíð fyrir hina opinberu tilkynningu um sjálfstæði Suður-Súdan 9. júlí næst komandi. Enn búa um 1,5 milljónir íbúa frá Suður-Súdan í norðrinu og leiða má að því líkum að margir þeirra muni snúa til baka til heimalandins á næstu mánuðum. Það mun auka álagið á ríkisstjórnina, sem þegar berst í bökkum, og hjálparsamtök að mæta þörfum þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×