Innlent

Bjargaði kind og lömbum úr sjálfheldu í kafasnjó

„Hún brosti við mér þakklát" segir Börkur Hrólfsson leiðsögumaður sem bjargaði kind úr sjálfheldu í kafsnjó í gær. Kindin reyndist ekki ein á ferð í vetrarríkinu fyrir austan.

Börkur var á ferð með bandarískum ljósmyndara og hugðust þeir keyra úr Borgarfirði eystri yfir í Loðmundarfjörð en hættu við þegar ljóst var að þeir kæmust ekki fyrir snjó. „Þegar við vorum að snúa við sá samferðarmaður minn einhverja hreyfingu í snjónum og það reyndist vera haus á kind sem var í kafi. Við fórum og athuguðum þetta og sáum að það voru lömb með rollunni niðri í holu," segir Börkur. „Það var ekkert annað að moka þær út og ná þeim upp úr þessu. Það var greinilegt að þær voru búnar að vera þarna í einhvern tíma."

Þá segir Börkur um kindina: „Það var eins og blessuð skeppnan vissi alveg nákvæmlega hvað var að gerast því hún var sallaróleg og var meira að segja brosandi þegar ég mokaði hana upp."

Og hún var fljót að forða sér úr þessu kalda, hvíta og blauta eftir að hafa þakkað fyrir sig. „Við sáum á eftir henni þar sem hún hvarf í þokuna," segir Börkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×