Innlent

Viðbrögð Helga Björns: Ég held að þetta sé í alvöru

Allt eldvarnarkerfi Hörpu fór í gang á ellefta tímanum í gærkvöldi á miðjum tónleikum Helga Björnssonar og tvö þúsund manns þurftu að rýma tónleikasali og veitingahús. Enginn eldur hafði þó brotist út - heldur steig gufa upp úr uppþvottavél.

Mikil stemmning hafði verið á tónleikum Helga þegar tilkynning heyrðist þar sem fólk var beðið um að yfirgefa húsið. Fólk virtist ekki taka tilkynninguna af fullri alvöru enda Helgi nýbúinn að kynna inn hið magnþrungna lag Brennið þið vitar.

„Ég held að þetta sé í alvöru," sagði Helgi. Ekki virðist fólk hafa skynjað bráða hættu, altént rölti það fram í hægðum sínum, kannski minnugt þess að rétt rúmur mánuður er síðan kerfið fór í gang og Harpan rýmd þegar einhver mundaði ofnhreinsiefni í eldhúsinu. Nú var sökudólgurinn uppþvottavél á fjórðu hæð, en hitaskynjari fyrir ofan vélina setti brunavarnarkerfið af stað þegar hurðin var opnuð og mikil gufa steig upp úr vélinni.

Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Hörpunnar, segir þetta óheppilegt atvik. „Ég held ekki. Það er ljóst að brunaviðvörunarkerfi í byggingu eins og Harpan er mjög flókið. Við munum skoða þetta mál með verktakanum strax á mánudaginn," segir Höskuldur aðspurður hvort kerfið sé of næmt.

Þegar sökudólgurinn hafði fundist hélt gleðin svo áfram eins og ekkert hefði í skorist.


Tengdar fréttir

Harpa rýmd í miðjum tónleikum Helga Björns

Hátt í 2000 manns þurftu að yfirgefa Hörpu í hasti í gærkvöldi, á meðan tónleikarnir Dægurperlur Helga Björns stóðu sem hæst í Eldborgarsalnum, þegar brunavarnarkerfi hússins fór í gang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×