Innlent

Stjórnvöld virði störf kennara

Jón Már Héðinsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri.
Jón Már Héðinsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri.
Skólameistari Menntaskólans á Akureyri segir mikilvægt að stjórnvöld meti og virði störf kennara því rannsóknir sýni að öflugt skólastarf sé langbesta forvörnin gegn rótleysi og lífsfirringu. Hann fagnar að náðst hafi kjarasamningur milli ríkis og kennara. Þetta er meðal þess sem fram kom í ræðu Jóns Más Héðinssonar, skólameistara, þegar Menntaskólanum á Akureyri var slitið 131. sinn í dag.

Jón Már sagði að á erfiðum tímum eins og nú mættu yfirvöld alls ekki skera endalaust niður fjárveitingar til skóla. Með því skapaðist vítahringur. Hann sagði að lakari þjónusta hefði í för með sér að nemendur flosnuðu upp frá námi og síðan væri kostað miklu fé til að fá þá til baka. „Það kostar fjórum sinnum meira að ná einstaklingi aftur inn í skólann en að bjóða honum fjölbreytilegt, einstaklingsmiðað nám, á meðan hann er í skólanum," sagði skólameistarinn.

Í dag voru 166 nýstúdentar brautskráðir var skólanum. Stúdentsprófseinkunnir nemenda MA er meðaltal allra einkunna frá upphafi fyrsta bekkjar til loka þess síðasta. Meðaleinkunn stúdentahópsins var nærri 7,5 og 7 stúdentar luku prófi með ágætiseinkunn, 9 og hærra, Dux, með einkunnina 9,69, er Eva María Ingvadóttir. Tveir deila titlinum semidux, með næsthæsta einkunn, 9,5, Gauti Baldvinsson og Gunnar Björn Ólafsson, en sá síðarnefndi hlaut í gær styrk Afreks- og hvatningarsjóðs stúdenta Háskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×