Innlent

Þröngt á þingi í alþingishúsinu

Háskóli Íslands fagnaði hundrað ára afmæli sínu í dag og því var haldin hátíðarsamkoma í þinghúsinu, þar sem háskólinn starfaði einmitt fyrstu þrjá áratugina.

Það var laugardaginn 17. júní árið 1911 sem langþráður draumur þjóðarinnar um íslenskan háskóla rættist loks, en þá var Háskóli Íslands stofnaður í samkomusal þinghússins.

Það þótti því við hæfi að halda hátíðarsamkomu í tilefni af hundrað ára afmæli skólans á sama stað.

Þar tóku til máls forseti alþingis, rektor Háskólans, menntamálaráðherra og formaður stúdentaráðs, sem öll sammældust um mikilvægi menntunar.

Að samkomunni lokinni þyrptust gestir svo niður í forsal þinghússins á fyrstu hæð, en í því litla rými starfaði háskólinn einmitt fyrstu 29 starfsárin, eða til ársins 1940.

Til að minnast þessa tíma í sögu háskólans var afhjúpuð veggmynd í forsalnum, auk þess sem forseti alþingis færði Háskólanum gjöf frá Alþingi, glerlistaverkið Þvottakonur, í minningu þeirra sem börðust fyrir stofnun Háskólans.

Lilja Dögg Jónsdóttir, formaður Stúdentaráðs reyndi að ímynda sér hvernig það hefði verið að sækja skóla í þinghúsinu. Hún játti því að á þeim tíma hlyti að hafa verið heldur þröngt á þingi hjá nemendum.

Á milli klukkan tvö og hálfsex síðdegis gat almenningur svo sett sig í sömu spor og reynt að ímynda sér fyrstu starfsár háskólans í þinghúsinu. Þá var opið hús í þinginu og gestir og gangandi gátu virt fyrir sér sýningar um bæði þingstörf Jóns Sigurðssonar og starfsemi Háskólans, en eins og sjá má nýtti fjöldi fólks sér tækifærið og leit í stutta hátíðarheimsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×