Innlent

Þykir umsókn að ESB sverta minningu Jóns Sigurðssonar

Ásmundur Einar er formaður Heimssýnar
Ásmundur Einar er formaður Heimssýnar
„Umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu svertir minningu Jóns Sigurðssonar sem á 200 ára afmæli í dag. Jón helgaði líf sitt sjálfstæði Íslands."

Þetta segir í dag á vef Heimssýnar, félags sjálfsstæðissinna í Evrópumálum sem telja hag Íslands best borgið utan ESB.

Formaður samtakanna er Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins.

„Umsóknin færir Evrópusambandinu á silfurfati yfirráð yfir fiskveiðilandhelginni. Beri umsóknin þann eitraða ávöxt að Ísland verði aðildarríki mun strandríkið Ísland leggja sína hagsmuni í hendur meginlandsríkjasambands. Samningaviðræður Íslands við önnur ríki á Norður-Atlantshafi væru á forræði Evrópusambandsins," segir þar ennfremur.

Samkvæmt viðhorfskönnun sem Capacent vann fyrir Heimssýn, og var birt í gær eru 50 prósent þjóðarinnar andvíg inngöngu í Evrópusambandið en 37,3 prósent eru fylgjandi aðild að ESB. 12,6 prósent gefa ekki upp afstöðu eða hafa ekki skoðun.

Verulega hefur dregið saman með stuðningsmönnum og andstæðingum aðildar og hefur munurinn ekki verið minni frá því í efnahagshruninu 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×