Innlent

Fjórtán nýnemar hlutu veglega styrki

Styrkþegar og fulltrúar þeirra á Háskólatorgi í dag.
Styrkþegar og fulltrúar þeirra á Háskólatorgi í dag.
Fjórtán nýnemar við Háskóla Íslands fengu í dag veglega styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði skólans, samtals að verðmæti tæplega fimm milljóna króna. Nemendurnir eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri á stúdentsprófi en hver styrkur nemur 300.000 krónum auk niðurfellingar skráningargjalds við háskólann, sem er 45.000 krónur.

þetta er í fjórða sinn sem styrkir eru veittir úr sjóðnum en þeir voru afhentir við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi í dag. Alls bárust 56 umsóknir frá nemendum í fjórtán framhaldsskólum um þá tólf styrki sem auglýstir voru til umsóknar en þar sem um mjög marga framúrskarandi nemendur var að ræða, ákvað Háskóli Íslands að fjölga styrkjunum í fjórtán.

Auk þess að sýna afburðaárangur í námi eru styrkþegarnir afreksfólk í tónlist, íþróttum og virkir í félags- og ungmennastarfi. Á meðal styrkþega má finna Íslandsmeistara í karate, reyndan þátttakanda í Gettu betur, knattspyrnukonu af Sauðárkróki, félaga í Sinfóníu unga fólksins og ólympíufara í raungreinum svo einhverjir séu nefndir.

Af þeim fjórtán tilvonandi nemendum Háskóla Íslands sem hljóta styrk úr sjóðnum í ár eru sjö dúxar og tveir semidúxar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×