Innlent

Ætla ekki að skipta sér af hugsanlegu lögbroti norska hersins

Höskuldur Kári Schram skrifar
Íslensk stjórnvöld ætla ekki að aðhafast frekar í tengslum við hugsanlegt lögbrot norska hersins hér á landi. Lítil sem engin samskipti hafa verið á milli íslenskra og norskra stjórnvalda vegna málsins.

Hilmar Páll Haraldsson, sem gegnir herþjónustu í Noregi, hefur í þrígang komið hingað til lands á undanförnum árum nú síðast í febrúarmánuði til að kynna starfsmöguleika í norska hernum. Norskur herskóli hefur borgað ferðir Hilmars til Íslands. Þessar kynningar gætu stangast á við hundruðustu og fjórtándu grein almennra hegningarlaga eins og Sigurður Líndal, lagaprófessor hefur bent á, - en það refsivert samkvæmt lögunum að ráða menn innan íslenska ríkisins til erlendrar herþjónustu.

Kynningar þessar hafa farið fram með leyfi skólastjórnenda í þremur framhaldsskólum hér á landi, Verslunarskóla Íslands, MR og menntaskólanum Hraðbraut. menntamálaráðherra hefur sent bréf á alla framhaldsskóla í landinu og farið þess á leit að kynningar af þessu tagi verði framvegis bannaðar innan veggja skólanna.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneyti stendur ekki til að aðhafast frekar í málinu.

Utanríkisráðuneytið hefur ekki verið í sérstöku sambandi við norska sendirráðið vegna þessa máls og þær upplýsingar fengust hjá norska varnarmálaráðuneytinu í dag að engin fyrirspurn hefði borist frá íslenskum stjórnvöldum.

Sigurður Líndal sagði í samtali við norska ríkissjónvarpið í gær að ef til vill væri hægt leysa þetta mál með afsökunarbeiðni frá Hilmari og öðrum hlutaðaeigandi aðilum.

Hilmar Páll kvaðst hins vegar í samtali við fréttastofu í dag ekkert hafa íhugað að biðjast afsökunar. Þetta mál sé alfarið í höndum íslenskra og norskra stjórnvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×