Innlent

Druslugöngur líka á Ísafirði og í Reykjanesbæ

Erla Hlynsdóttir skrifar
Frá Druslugöngunni í Toronto
Frá Druslugöngunni í Toronto
Ákveðið hefur verið að halda Druslugöngur á Ísafirði og í Reykjanesbæ þann 23. júlí, sama dag og Druslugangan verður farin í Reykjavík. Líklegt þykir að fleiri Druslugöngur verði farnar á landinu þennan dag.

Á Ísafirði ætla þátttakendur að ganga frá gamla sjúkrahúsinu að Silfurtorgi. Þá verður stoppað við kirkjuna, héraðsdóm, lögreglustöðina og sýslumannsembættið. Við lok göngunnar tekur við stutt athöfn á Silfurtorgi. Gangan hefst klukkan tvö.

Á sama tíma hefst Drusluganga í Reykjanesbæ. Þar er ætlunin að hittast hjá Nettó, ganga niður Hafnargötuna og enda í skrúðgarðinum. Nánari dagskrá hefur ekki verið útfærð.

Í Reykjavík verður gengið frá Hallgrímskirkju og niður Ingólfstorg, farið verður niður Skólavörðustíg, Bankastræti og Austurstræti. Á Ingólfsstræti verða ræðuhöld og jafnvel tónlistaratriði.

Yfirlýst markmið göngunnar er að uppræta þá fordóma sem endurspeglast í áherslu á klæðaburð og ástand brotaþola í umræðu um kynferðisofbeldi. Þannig vilja skipuleggjendur göngunnar vekja athygli á því að það eru gerendur sem bera ábyrgð á kynferðisofbeldi, en ekki þolendur.

Fyrirmynd Druslugöngunnar er hin svonefnda Slut walk sem fyrst var farin í Toronto í Kanada fyrr á þessu ári. Tilefni göngunnar voru umdeild ummæli lögreglumanns í Toronto í Kanada sem sagði að konur þyrftu að forðast að klæða sig eins og druslur til að verða ekki nauðgað.

Vefsíða Druslugöngunnar.


Tengdar fréttir

Drusluganga í Reykjavík

Drusluganga verður farin í Reykjavík þann 23. júlí. Yfirlýst markmið göngunnar er að uppræta þá fordóma sem endurspeglast í áherslu á klæðaburð og ástand brotaþola í umræðu um kynferðisofbeldi. Þannig vilja skipuleggjendur göngunnar vekja athygli á því að það eru gerendur sem bera ábyrgð á kynferðisofbeldi, en ekki þolendur. Fyrirmynd Druslugöngunnar er hin svonefnda Slut walk sem fyrst var farin í Toronto í Kanada fyrr á þessu ári. Tilefni göngunnar voru umdeild ummæli lögreglustjórans í Toronto, Michael Sanguinetti, sem sagði á háskólafyrirlestri að "konur þyrftu að forðast að klæða sig eins og druslur til að verða ekki fórnarlömb." Sanguinetti baðst síðar afsökunar á orðum sínum. Konum í Toronto var engu að síður misboðið og skipulögðu gönguna sem fór fram í apríl á þessu ári. Þar var konum uppálagt að klæða sig eins druslulega og þeim þóknaðist, í þágu kynferðislegs frelsis. Konur um allan heim hafa tekið hugmyndinni fagnandi. Þegar hafa margar druslugöngur verið farnar um víða veröld og enn fleiri sem hafa verið skipulagðar, meðal annars í Danmörku, Svíþjóð, Bretlandi, Ástralíu og Suður-Afríku. "Við höldum að þetta sé málefni sem snerti alla, ekki bara konur, þrátt fyrir að nafnið Drusluganga sé vissulega með tilvísun í það að konur eigi að geta klætt sig og hagað sér eins og þeim sýnist án þess að það sé "ávísun" á að vera nauðgað," segir Anna Jóna Heimisdóttir, ein af skipuleggjendum göngunnar. Hún segir það einmitt oft vera viðkvæðið, bæði í fjölmiðlum og samfélaginu almennt, að konur geti sjálfar sér um kennt þegar þær eru beittar kynferðislegu ofbeldi ef þær voru klæddar á ögrandi hátt. Fyrsti fundur skipuleggjenda Druslugöngunnar var í gærkvöldi og var þá bæði ákveðið að þýða nafnið á þennan hátt, sem og dagsetningin sem gangan verður farin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×