Innlent

Ingibjörg Sólrún: Var einhver að tala um pólitík?

Ingibjörg Sólrún segir að Steingrímur og Ögmundur hafi opinberað vanþekkingu sína um landsdómsmálið.
Ingibjörg Sólrún segir að Steingrímur og Ögmundur hafi opinberað vanþekkingu sína um landsdómsmálið.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir að Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hafi opinberað vanþekkingu sína um landsdómsmálið. Þetta segir hún í færslu sinni á Facebook í dag sem ber yfirskriftina: „Var einhver að tala um pólitík?“

Hún segir að það sé komið í ljós að þeir hafi ákveðið að beita ákæruvaldi gegn tilteknum einstaklingum án þess að hafa kynnt sér niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis.

„Ögmundur segir í viðtali við Pressuna þann 6. júní að hann hafi greitt atkvæði með ,,tilllögum rannsóknarnefndar Alþingis sem vildi láta skoða mál oddvita ríkisstjórnarflokkanna í aðdraganda hrunsins." Í viðtali við DV 8. júní er hann við sama heygarðshornið og segir að meirihluti alþingis hafi fallist á tillögur rannsóknarnefndarinnar ,,um að kanna framgöngu oddvita ríkisstjórnarinnar í aðdraganda hrunsins." Þetta er rangt. Rannsóknarnefndin gerði engar slíkar tillögur.

Steingrímur segir svo í vitali við Fréttablaðið 11. júní að Rannsóknarnefnd Alþingis ,,hafi komist að þeirri niðurstöðu að tólf manns hefðu gerst sekir um vanrækslu eða brot í starfi."  Þetta er rangt. Rannsóknarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að 3 ráðherrar, 3 bankastjórar í Seðlabankanum og forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins hefðu gerst sekir um vanrækslu," segir Ingibjörg Sólrún.

Hún segir að fólk geti haft á því mismunandi skoðanir hver sé ástæðan fyrir hruni íslenska fjármálakerfisins og hvaða einstaklingar eigi þar helst hlut að máli. „En þegar þingmenn og ráðherrar fara með ákæruvald yfir einstaklingum duga ekki persónulegar skoðanir þeirra. Það  verður að gera til þeirra þá kröfu að þeir kunni a.m.k. skil á niðurstöðum þeirrar rannsóknar sem á að liggja ákærum til grundvallar. Á því er greinilega mikill misbrestur," segir Ingibjörg.

Og hún endar færslu sína á Facebook í dag á orðunum: „Var einhver að tala um pólitík í tengslum við ,,landsdómsmálið"? Skyldi það vera hugsanlegt að einhverjir þingmenn hafi látið stjórnast af hyggindum sem í hag gátu komið - pólitískt?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×