Innlent

Býður Húsvíkingum natríumklórat í stað álvers

Frá Húsavík
Frá Húsavík
Finnskt fyrirtæki hefur með tilkynningu til Skipulagsstofnunar hafið formlegan undirbúning að smíði natríumklóratverksmiðju á Bakka við Húsavík, sem myndi skapa allt að sextíu framtíðarstörf. Málið er til umræðu á bæjarstjórnarfundi í Norðurþingi sem hófst nú síðdegis.

Eftir að núverandi ríkisstjórn hafnaði fyrir nærri tveimur árum að endurnýja viljayfirlýsingu við Alcoa um álver á Bakka í því skyni að leita að fleiri valkostum hefur Landsvirkjun hrundið af stað einskonar kapphlaupi um það hvaða fyrirtæki fengi að kaupa orkuna frá jarðvarmavirkjunum í Þingeyjarsýslum.

Finnska fyrirtækið Kemira, sem er með höfuðstöðvar í Helsinki, hefur nú formlega gefið sig upp sem einn af keppinautunum með tilkynningu til Skipulagsstofnunar og fyrirspurn um hvort verkefnið sé matsskylt. Þar eru sýndar myndir af natrímumklóratverksmiðju í Finnlandi en fram kemur að fyrirhugaðri verksmiðju á Bakka er ætlað að framleiða sextíu þúsund tonn af því efni á ári til nota sem bleikiefni í pappírsiðnaði. Auk þess yrðu til 3.300 tonn af vetnisgasi sem hliðarafurð fyrir innanlandsmarkað. Helstu hráefni sem þarf til framleiðslunnar eru salt, saltsýra, vítissódi og vatn.

Verksmiðjan þarf um 40 megavött af raforku eða í kringum 360 gígavattstundir á ári. Áætlað er að um 300 manns vinni við smíði verksmiðjunnar á um tveggja ára framkvæmdatíma en síðan skapist allt að sextíu framtíðarstörf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×