Innlent

Gætu þurft að fresta útboði olíuleitar á Drekasvæðinu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Íslensk stjórnvöld skoða nú hvort fresta þurfi útboði olíuleitar á Drekasvæðinu í sumar þar sem þrjú frumvörp, sem voru forsenda útboðsins, dagaði uppi á Alþingi.

Íslensk stjórnvöld tilkynntu fyrir fimmtán mánuðum að annað útboð til leitar og vinnslu olíu á Drekasvæðinu skyldi hefjast þann 1. ágúst 2011, eftir aðeins sex vikur. Orkustofnun hefur að undanförnu kynnt útboðið erlendis miðað við þær forsendur að skattalöggjöf yrði breytt í samræmi við lagafrumvörp sem verið hafa í meðförum Alþingis en íslenska skattkerfið er talið hafa fælt félög frá þátttöku í fyrsta útboðinu fyrir tveimur árum.

Fyrir lá að frumvörpin nytu stuðnings allra flokka og voru viðkomandi þingnefndir búnar að afgreiða þau frá sér án ágreinings og því virtist einfalt mál að koma þeim í gegnum lokaafgreiðslu þingsins. Drekafrumvörpin fóru hins vegar ekki inn á forgangslista stjórnarflokkanna síðustu sólarhringa þinghaldsins og hafa þau nú dagað uppi.

Þingflokksformenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, þær Þórunn Sveinbjarnardóttir og Þuríður Backmann, héldu utan um forgangslistann og segir Þuríður að ekki hafi náðst að koma þessum málum á dagskrá. Þau verði að bíða fram í september. Þórunn segir allt þinghaldið síðustu dagana hafa snúist um kvótann og þetta sé fórnarkostnaðurinn sem hljótist af þeim gömlu vondu vinnubrögðum sem enn tíðkist á Alþingi.

Svo virðist sem forystumenn hér á Alþingi hafi í óðagotinu síðustu dagana fyrir helgi ekki áttað sig á því að með því að lögfesta ekki frumvörpin myndu þeir setja Drekaútboðið í uppnám. Svo neyðarlegt er þetta glappaskot þingsins að innan Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytis er verið að skoða hvort menn þurfi hreinlega til að fresta útboðinu, þar sem gildandi lög stangast á við þá útboðsskilmála sem búið er að kynna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×