Innlent

Segir breytingar ógna fjárhagslegri stöðu Sjálfstæðisflokksins

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason. Mynd/GVA
Allar breytingar á kvótakerfinu koma sér illa fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ógnar fjárhagslegri stöðu flokksins, að mati þingmanns VG. Hann segir að það sé eins og að slíta pólitíska hjartað úr Framsóknarflokknum að breyta kvótakerfinu og að það hafi þurft konu að vestan til að berja í gegn breytingar á kvótakerfinu, en þar á þingmaðurinn við Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis. Þetta er meðal þess sem fram kemur í pistli Björns Vals Gíslasonar, þingmanns VG, á heimasíðu hans.

Minna kvótafrumvarp Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, varð að lögum á laugardag en hart hefur verið tekist á um málið síðustu daga. Björn Valur segir frumvarpið fela í sér afgerandi stefnubreytingu í viðamiklum málum auk sanngjarnra leiðréttinga á auðsjánalegu óréttlæti.

Hann segir að það hafi komið glöggt fram í atkvæðagreiðslum á laugardaginn að Sjálfstæðisflokkurinn hafi sitt fjárhagslega bakland í sjávarútveginum. „Þeir vörðu óbreytt kerfi, lögðust gegn öllum lagfæringum og ítrekuðu hótanir sínar um að standa berjast af hörku gegn öllum breytingum á lögum um stjórn fiskveiða."

Þá segir Björn Valur: „Seinni tíma saga Framsóknarflokksins er svo samofin kvótakerfinu að jafnast nánast á við að slíta pólitíska hjartað úr flokknum að breyta því. Samfylkingin hafi ekki erindi sem erfiði í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn á þessum vettvangi. Það var því ekki fyrr en Vinstri græn komust til valda sem hreyfing kom á málin. En það þurfti meira til. Það þurfti konu að vestan til að berja þær breytingar í gegnum þingið."

Skrif þingmannsins er hægt að lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×