Fótbolti

Aron Einar: Víti en ekki rautt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
„Það er ömurlegt að fá rautt á sínu fyrsta stórmóti og missa af næsta leik sem er mjög mikilvægur fyrir okkur,“ sagði Aron Einar Gunnarsson á æfingu íslenska U-21 landsliðsins í morgun.

Aron Einar fékk að líta rautt í leiknum gegn Hvíta-Rússlandi í gær sem tapaðist, 2-0. Hann braut á sóknarmanni Hvít-Rússa og var í kjölfarið dæmt víti.

„En fótboltinn er svona. Það er ekki hægt að gera neitt í þessu. Við verðum bara að standa saman sem lið - það kemur maður í manns stað og við verðum bara að vera klárir fyrir næsta leik.“

Hann segir að það hafi verið rétt að dæma víti. „En aldrei rautt. Það voru þó reglur sem þeir settu fyrir mótið að það eigi að vera rautt spjald fyrir að ræna leikmann góðu marktækifæri.“

„Við fórum á fund með dómurum tveimur dögum fyrir leik og þeir segja að tveggja fóta tækling er beint rautt líka. Ég fékk tvær svoleiðis og hann var greinilega ekki alveg samkvæmum sjálfum sér í þessum leik.“

„En ég get ekki kvartað neitt. Þetta var víti en ég hélt að ég myndi fá gult spjald fyrir þetta. Svona er lífið, það er ekki alltaf dans á rósum.“

„Við erum þéttur hópur. Strákarnir voru niðurdregnir í gær og það var ekkert gaman í rútuferðinni aftur til Álaborgar. En við erum búnir að rífa okkur upp núna og vonandi mætum við klárir í leikinn gegn Sviss. Það þýðir ekkert annað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×