Innlent

Dyrhólaey opnuð í leyfisleysi

Dyrhólaey
Dyrhólaey
Hlið, lokanir og upplýsingaskilti voru tekin niður við inngang að friðlandinu á Dyrhólaey aðfararnótt föstudagsins 10. júní, en opnun svæðisins er háð leyfi frá Umhverfisstofnun.

Þetta segir Þorsteinn Gunnarsson, ábúandi á Vatnsskarðshólum, en hann telur umhverfisstofnun hafa veitt skemmdarvörgum hjálparhönd með því að bregðast ekki við tilkynningu um málið fyrr en á föstudagskvöldið. Allan daginn hafi Dyrhólaey því verið opin og umferð streymt um svæðið, en þar sé æðarvarp nú á afar viðkvæmu stigi.

Þorsteinn segir lokun svæðisins mjög mikilvæga en á síðustu árum hafi Umhverfisstofnun hvað eftir annað opnað eyjuna á miðjum varptíma vegna þrýstings frá aðilum í ferðaþjónustu. Slíkt hafi hrikalegar afleiðingar á fuglalífið.

Lokun svæðisins hafði verið auglýst frá 5. maí til 8. júní með ákvæði um mögulega framlengingu, en umhverfisstofnun gaf ekki út frekari fyrirskipanir um lokunartíma fyrr en tilkynningu Þorsteins var svarað í gærkvöldi með þeirri fyrirskipun að svæðið skyldi lokað til 14. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×