Innlent

Boltinn hjá biskupi

„Það eru komnar skýrar niðurstöður og ber að fagna því,“ segir Sigríður.
„Það eru komnar skýrar niðurstöður og ber að fagna því,“ segir Sigríður. Mynd/Arnþór Birkisson
Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur í Grafarholtsprestakalli, segir skýrslu rannsóknarnefndar kirkjuþings vandaða og því beri að fagna. Niðurstöðurnar séu skýrar og nú sé boltinn hjá séra Karli Sigurbjörnssyni, biskupi, og öðrum sem fjallað er um í skýrslunni. Af þeim sökum vill hún ekki segja til um hvort Karl eigi að víkja sem biskup líkt og Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, fórnarlamb séra Ólafs Skúlasonar, hefur kallað eftir.

Rannsóknarnefnd kirkjuþings kynnti í morgun rúmlega 300 síðna skýrslu um viðbrögð og starfshætti þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi um kynferðisbrot. Rannsóknarnefndin telur að kirkjuráð hafi brotið landslög árið 1996 þegar það lýsti yfir stuðningi við Ólaf, sem þá var biskup, vegna ásakana um kynferðisbrot. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að Karl hafi brugðist á margan hátt og gert mistök þegar biskupsmálið kom upp.

Brotnar kirkjusögur

Sigríður kallaði eftir því í ágúst á síðasta ári að óháð sannleiksnefnd yrði skipuð til að fara yfir málið í heild sinni. Kominn væri tími til að brotnar kirkjusögur kæmu út úr skápnum. Þá sagði hún Karl sem höfuð kirkjunnar liggja undir alvarlegu ámæli.

„Ég mætti í morgun á blaðamannfundinn og hlustaði á Róbert Spanó segja frá skýrslunni og hef síðan verið að lesa hana í dag. Mér sýnist þetta vera vönduð vinna og það eru komnar skýrar niðurstöður og ber að fagna því,“ segir Sigríður.

Spurð hvort hún telji að Karl eigi að víkja sem biskup segir Sigríður: „Ég ætla að bíða eftir því að heyra hvernig biskup bregst við skýrslunni. Boltinn er hjá þeim sem fjallað er um í skýrslunni.“

Kirkjuþing kemur saman eftir helgi þar sem fjallað verður um skýrsluna en fyrst þá hyggst Karl tjá sig um  málið.

„Þær eru hetjur“

 

Sigríður segir að þær konur sem brotið var á og fjallað er um í skýrslu rannsóknarnefndarinnar vera hetjur. „Það sem að situr eftir hjá mér eftir veturinn og það sem hefur gerst frá því að umræðan um rannsóknarnefndina hófst og þangað til núna er virðing mín gagnvart þessum konum sem hafa haldið fram sínum sögum og tekið á sig að rifja upp þessar sársaukafullu sögur upp aftur. Mér finnst að þær eigi heiður skilinn. Þær eru hetjur.“


Tengdar fréttir

Karl gerði mistök í máli Guðrúnar Ebbu

Rannsóknarnefnd Kirkjuþings kemst meðal annars að þeirri niðurstöðu að Karl Sigurbjörnsson biskup hafi orðið á mistök sem forseti kirkjuráðs varðandi úrlausn mála Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur varðandi erindi sem hún sendi í mars 2009 vegna meintra kynferðisbrota föður síns, Ólafs Skúlasonar.

Ólafur með ráðandi persónuleika - dró kirkjunnar menn í dilka

Persónuleiki Ólafs Skúlasonar, þáverandi biskups, hafði mikil áhrif á viðbrögð kirkjunnar manna þegar Ólafur var sakaður um kynferðisbrot árið 1996. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar kirkjuþings sem birt var í morgun. "Þá verður ráðið af framburði þeirra sem fyrir nefndina komu að áhrif Ólafs Skúlasonar á samstarfsmenn sína og aðra starfsmenn kirkjunnar voru verulega mikil. Biskupinn hafi verið með mikinn og ráðandi persónuleika, hann hafi farið sínu fram og óhikað látið í ljósi afstöðu sína um stöðu málsins. Menn hafi verið dregnir í dilka sem annaðhvort "með honum eða á móti". Hafi hann þannig með framgöngu sinni haft mótandi áhrif á aðgerðir einstaklinga sem að málinu komu, hvort sem er á vettvangi kirkjuráðs, Prófastafélags Íslands eða stjórnar Prestafélags Íslands," segir í skýrslunni.

Sigrún Pálína vill að Karl víki sem biskup

Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, fórnarlamb Ólafs Skúlasonar, lítur ekki á niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar kirkjuþings sem gleðitíðindi. Hún segist hafa beðið eftir þessari niðurstöðu í yfir þrjátíu ár og sorglegt sé að núverandi biskup skuli ekki taka ábyrgð á gjörðum sínum.

Séra Karl Sigurbjörnsson tjáir sig ekki

Biskup Íslands, séra Karl Sigurbjörnsson, ætlar ekki að tjá sig um skýrslu rannsóknarnefndar kirkjuþings fyrr en eftir fjóra daga. Fréttastofa óskaði eftir viðtali við Karl í ljósi þess að í skýrslunni kemur fram að hann hafi brugðist á margan hátt og gert mistök þegar biskupsmálið svokallaða kom upp árið 1996 þegar séra Ólafur Skúlason, þáverandi biskup, var sakaður um kynferðisbrot. Þá kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að viðbrögð presta og annarra starfsmanna kirkjunnar þegar málið kom upp hafi einkennst af ráðaleysi og skorti á faglegum og vönduðum vinnubrögðum. Kirkjuþing verður haldið á þriðjudag og munu kirkjunnar menn ekki tjá sig um skýrsluna fyrr en þá. Uppgefin rök eru þau að skýrslan hafi fyrst verið birt í morgun og að menn þurfi tíma til að fara yfir hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×