Innlent

Ingvi Hrafn: Ég er bara dæmdur maður

Ingvi Hrafn Jónsson vonar að það sé gott Skype-samband á Kvíabryggju svo hann geti sent út þætti sína, Hrafnaþing, á sjónvarpsstöðinni ÍNN.
Ingvi Hrafn Jónsson vonar að það sé gott Skype-samband á Kvíabryggju svo hann geti sent út þætti sína, Hrafnaþing, á sjónvarpsstöðinni ÍNN.
„Fjögurra ára martröð er lokið," segir sjónvarps- og blaðamaðurinn Ingvi Hrafn Jónsson sem í dag var dæmdur, ásamt eiginkonu sinni, til að greiða 23 milljónir fyrir skattalagabrot. Hann segir að ástæða ákærunnar sé vanræksla endurskoðenda.

„Við erum dæmd fyrir skattalagabrot sem aldrei voru framin af ásetningi," segir hann. „Þú berð ábyrgð á þinni skattaskýrslu, þó þú gerðir hana ekki. Ef hún er ekki rétt þá berð þú ábyrgð."

Hann var dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára og þarf að greiða fimmtán milljónir króna í sekt. Eiginkona hans fékk þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm og þarf að greiða átta milljónir króna í sekt.

„Þetta snérist upphaflega um þrjár og fimm milljónir en það er lagt á það 300 prósent. Ég bauðst til að borga þetta fyrir tveimur og hálfu ári síðan en þá fékk ég svarið: Nei, það verður að ákæra ykkur," segir Ingvi Hrafn.

Aðspurður hvort hann eigi peninga til að borga sektina, segir Ingvi Hrafn. „Mér skilst að það sé orðið svo flott á Kvíabryggju, ég vona að það sé gott Skype-samband þar."

Og ætlar hann að gera það, í staðinn fyrir að borga sektina? „I have no idea, nú er þetta í höndum ríkisins. Ég er bara dæmdur maður," segir hann að lokum.

Ingvi Hrafn mun fara yfir málið í þætti sínum, Hrafnaþingi, á sjónvarpsstöðinni ÍNN í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×