Innlent

Vítisenglar sverja af sér kannabisræktendur

Vítisenglarnir sverja af sér fíkniefnapúkana.
Vítisenglarnir sverja af sér fíkniefnapúkana.
„Við könnumst ekkert við þetta. Það hefur enginn Vítisengill eða nokkur okkur tengdur verið handtekinn,“ segir Einar Marteinsson, forseti Hells Angels á Íslandi, en lögreglan tilkynnti á vef sínum í dag að tveir karlmenn grunaðir um að tengjast Vítisenglunum hefðu verið handteknir og væru grunaðir um kannabisræktun auk vopnalagabrota.

Við þetta kannast Einar ekki og segir að hann hefði eflaust fengið einhverjar fregnir af handtöku mannanna ef svo væri.

Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að ýmis gögn, sem talin eru að tengist Hells Angels klúbbnum, fundust í húsnæðinu sem ræktunin fór fram. Þá sagði einnig að tveir aðrir karlmenn á þrítugsaldri, sem hafa tengingu við klúbbinn að sögn lögreglu, hefðu einnig verið yfirheyrðir vegna málsins. 

Íslensku Vítisenglunum hefur verið mikið í mun að verja mannorð klúbbsins í fjölmiðlum og Einar oft bent á að samtökin hér á landi hafi aldrei komist í kast við lögin. Lögregluyfirvöld hafa hinsvegar verulegar áhyggjur af tilveru Vítisenglanna á Íslandi en ríkilögreglustjóri hefur meðal annars tilkynnt opinberlega að klúbburinn sé angi af skipulagðri glæpastarfsemi.

Og það virðist vera að Einar og félagar hafi fengið nóg.

„Það eru lögsóknir í farvatninu vegna rógburðar. Við ætlum í meiðyrðamál,“ segir Einar en aðspurður segir hann málin skýrast eftir helgi og þá geti hann tjáð sig frekar um lögsóknirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×