Innlent

Metfjöldi sækir um í Háskóla Íslands

Metfjöldi umsókna hefur borist Háskóla Íslands vegna skólavistar á komandi haustmisseri, eða ríflega 9200 umsóknir. Á síðasta ári var fjöldinn 8.300.

Rúmlega sex þúsund umsóknir um grunnnám bárust skólanum og nemur fjölgun slíkra umsókna á milli ára tæpum 14 prósentum. Þá fjölgaði umsóknum um framhaldsnám um tæp 12 prósent en þær reyndust rúmlega þrjú þúsund talsins.

Þegar horft er til einstakra sviða Háskóla Íslands bárust flestar umsóknir um grunnnám á Hugvísindasviði eða 1.735. Þá sóttu 1.446 um grunnnám á Félagsvísindasviði, 1.275 á Heilbrigðisvísindasviði, 1.007 á Verkfræði- og náttúruvísindasviði og 615 á Menntavísindasviði. Samanlagt gera þetta 6.078 umsóknir um grunnnám á öllum sviðum háskólans en til samanburðar voru þær 5.351 í fyrra.

Umsóknum um meistaranám og nám á meistarastigi fjölgar á flestum sviðum Háskóla Íslands og reyndust þær samanlagt 3.022 nú í vor. Í fyrra voru umsóknirnar hins vegar 2.700.

Háskóli Íslands hefur vaxið gríðarlega síðustu ár. Skólinn stækkaði um fjórðung við sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands 1. júlí 2008 og svo aftur um 20 prósent við inntöku nýnema haustið 2009.  Vöxturinn hélt áfram í fyrra og áframhald verður á því miðað við framangreindar tölur.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×