Innlent

Vildi milljónir í miskabætur - kyrrsetning olli hugarangri

Skarphéðinn Berg.
Skarphéðinn Berg.
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði ríkið, Tollstjóra og Skattrannsóknarstjóra ríkisins af skaðabótakröfu Skarphéðins Bergs Steinarssyni, fyrrverandi stjórnarformanns FL Group.

Skarphéðinn krafðist fimm milljóna króna í miskabætur og vildi annað eins í skaðabætur vegna kyrrsetningar á eignum hans sem hann þurfti að þola vegna rannsóknar á skattamálum FL Group.

Það var hinn 11. nóvember 2008 sem Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannsókn á bókhaldi og skattskilum Baugs Group hf., nú Stoða hf., vegna rekstrartímabilsins 2005 til og með desember 2007. Skarphéðinn hlaut þá stöðu grunaðs manns og samþykkti Sýslumaðurinn í Reykjavík að kyrrsetja eignirnar. Héraðsdómur hnekkti þeim úrskurði síðar.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins var sýknaður af kröfu Skarphéðins vegna aðildarskorts, enda var það sýslumaðurinn sem samþykkti kyrrsetninguna.

Krafan um miskabætur Skarphéðins byggðist á því að kyrrsetningargerðin hefði valdið honum hugarangri og mikið álag hafi verið á fjölskyldu hans vegna málsins.

Skaðabótakrafan byggðist á því að Skarphéðinn hefði orðið fyrir ólögmætri meingerð af hálfu stofnannanna vegna umfjöllunar um málið í fjölmiðlum sem Skarphéðinn telur stofnanirnar bera ábyrgð á.

Dómurinn fellst ekki á þessi rök. Í niðurstöðunni segir að ekki sé fallist á að í beiðni um kyrrsetningu á eignum Skarphéðins hefðu falið í sér brot á skaðabótareglum eða í því hefði falist ólögmæt meingerð gegn persónu Skarphéðins. Heldur hafi, þrátt fyrir niðurstöðu kyrrsetningarmálsins, verið um að ræða eðlilegan þátt í þeirri rannsókn sem enn stendur yfir og er ekki lokið.

Þá er með öllu ósannað að starfsmenn stofnannanna hefðu lekið upplýsingum til fjölmiðla eða átt þátt í því að frétt um kyrrsetninguna hafi borist til fjölmiðla í aðdraganda hennar.

Þess má geta að málskostnaður fellur niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×