Innlent

Funda á morgun og ákveða næstu skref vegna úrskurðar ESA

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, úrskurðaði í dag að íslenska ríkið hafi gerst brotlegt við EES samninginn með því að veita fjármálastofnunum ólögmæta ríkisaðstoð.

Í hruninu stóðu íslenskar fjármálastofnanir frammi fyrir lausafjárskorti og var því heimild í neyðarlögunum að Íbúðalánasjóður gæti keypt fasteignaveðlán af fjármálastofnunum. Um er að ræða lánasöfn að upphæð 29 milljarðar sem sjóðurinn keypti af fjórum sparisjóðum, en þeir eru í dag allir í slitameðferð.

ESA telur ólíklegt að aðili á markaði myndi hafa keypt lánasöfnin með þessum hætti og því gæti kerfið falið í sér ríkisaðstoð til fjármálastofnana.

Eftir að ESA tók málið til skoðunar hefur Íbúðalánasjóður sent ESA öll umbeðin gögn um málið, þar á meðal ítarlegt verðmat á raunvirði lánasafnanna, unnið af óháðum aðila samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum.

ESA fer fram á að íslensk yfirvöld leggi niður þetta kerfi án tafar og geri nauðsynlegar ráðstafanir til að, endurheimta þá aðstoð sem ekki samrýmist ákvæðum EES samningsins, eigi síðar en í lok október 2011.

Íslensk stjórnvöld þurfa því nú að sýna að ekki var greitt yfirverð fyrir bréfin sem er þá ólögmæt ríkisaðstoð. Fulltrúar Íbúðalánasjóðs munu funda með fulltrúum fjármálaráðuneytisins og velferðarráðuneytisins á morgun til að ákvarða næstu skref í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×