Stærsta ferðahelgi ársins er framundan, og munu sérstaklega margir leggja leið sína til Vestmanneyja á þjóðhátið.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, var til viðtals í Reykjavík síðdegis í dag þar sem hann ræddi löggæsluverkefnin um helgina framundan.
„Við erum með viðbótarlöggæslu á öllu svæðinu, verðum með viðbót í Landeyjahöfn og úti á þjóðvegunum,“ segir hann.
Lögreglumenn verði staðsettir í Landeyjahöfn, þar sem fólki verður boðið að blása. Kjósi fólk að sleppa því og taka áhættuna, verða þeir gripnir, segir Sveinn.
Búast megi við umferðartöfum
Sveinn segir að umferðin um þjóðveginn sé orðin þétt og mikil, og spáir því að hún verði þannig áfram um helgina.
Hann mælir með því að fólk gefi sér tíma til að fara milli staða. Gera megi ráð fyrir því að ferðin í Landeyjahöfn taki um tvær og hálfa klukkustund frá Reykjavík.
Talsverð umferð sé allan daginn alla daga. „Fólk verður að gefa sér góðan tíma í milliferðir,“ segir hann.