Enski boltinn

James tekur eitt ár í viðbót með Bristol City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David James í leik með Bristol City.
David James í leik með Bristol City. Nordic Photos / Getty Images
Hinn fertugi David James hefur skrifað undir eins árs samning við enska B-deildarfélagið Bristol City sem hann lék með á síðustu leiktíð.

James kom til Bristol City frá Portsmouth og náði að spila alla leiki liðsins á síðasta tímabili nema tvo. Liðinu gekk þó ekkert sérstaklega vel og hafnaði í fimmtánda sæti deildarinnar í vor.

„Þrátt fyrir allt mótlætið sem við máttum þola á síðustu leiktíð þá áttum við góða spretti inn á milli. Ég er sannfærður um að við getum náð góðum árangri á næsta tímabili,“ sagði James á heimasíðu félagsins.

James á langan feril að baki en hann var til að mynda á mála hjá Liverpool í sjö ár og lék alls 214 leiki fyrir félagið. Hann hóf ferilinn með Watford en hefur einnig leikið með Aston Villa, West Ham og Manchester City auk Portsmouth og Bristol. Hann lék einnig 53 leiki með enska landsliðinu á ferlinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×