Enski boltinn

Villas-Boas: Ég er ekki sérstakur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Villas-Boas á blaðamannafundinum í dag.
Villas-Boas á blaðamannafundinum í dag. Nordic photos/afp
Hinn nýi stjóri Chelsea, Andre Villas-Boas, var formlega kynntur til leiks í dag og hann mætti þá ensku pressunni í fyrsta skipti sem knattspyrnustjóri Chelsea. Þjálfaranum er iðulega líkt við landa sinn og fyrrum lærimeistara, Jose Mourinho, en Villas-Boas er ekki hrifinn af því.

Það er frægt að þegar Mourinho tók við Chelsea þá sagðist hann vera hinn sérstaki. Villas-Boas segist alls ekki vera hinn sérstaki og vill ekki slíkt viðurnefni.

"Þetta er ekki eins manns sýning. Knattspyrna snýst um að skapa sterka liðsheild. Ekki bara hjá leikmönnum heldur hjá öllum sem standa að liðinu. Það ætti kannski að kalla mig Hópmanninn þar sem ég vil búa til einingu og sterkan hóp. Þannig næst árangur," sagði Villas-Boas en hann var einnig spurður að því hvernig honum litist að fara að glíma við Sir Alex Ferguson.

"Þetta snýst ekki bara um að ég mæti Sir Alex. Þetta snýst um að toppfélag eins og Chelsea ætlar að berjast um titilinn. Við þurfum að vera á tánum frá fyrsta leik."

Hinn 33 ára gamli Villas-Boas náði stórkostlegum árangri með Porto og vann alla bikara sem voru í boði með félaginu á síðustu leiktíð.

Chelsea greiddi rúmar 13 milljónir punda til þess að losa hann undan samningi við Porto.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×