Innlent

Skimun í ristli og endaþarmi myndi spara miklar upphæðir

Reglubundin skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi myndi spara þjóðarbúinu miklar upphæðir á hverju ári segir sérfræðingur í meltingarsjúkdómum. Meðferð vegna sjúkdómsins kostar íslenska heilbrigðiskerfið um einn milljarð á ári.

Tíðni endaþarms og ristilkrabbameins hér á landi hefur þrefaldast hjá körlum og tvöfaldast hjá konum síðustu 50 ár og er búist við áframhaldandi aukningu næstu áratugi. Ásgeir Teódórsson, meltingarfærasérfræðingur, segir einkenni ekki koma fram fyrr en á seinni stigum sjúkdómsins og þar af leiðandi leiti sjúklingar sér ekki hjálpar fyrr en það er orðið um seinan.

„Þarna þarf að beita skurðaðgerðum, lyfjameðferð og geislameðferð. Eins og við vitum í dag þá er lyfjameðferðin gríðarlega dýr og við höfum áætlað að krabbamein, að meðhöndla ristilkrabbamein á ári séu jafnvel um einn milljarður," segir Ásgeir.

Auðvelt er að finna sjúkdóminn með einfaldri skimun og lækna hann á forstigum. Ásgeir telur því mikilvægt að hefja reglubundna skimun á þeim sem eru komnir yfir fimmtugt sem og öðrum í áhættuhópi. Samkvæmt greiningu myndi það kosta á bilinu 60 til 80 milljónir að skima Íslendinga á aldrinum 67 ára.

„Ef við berum þetta saman við skimunaraðgerðir að þá hljóta menn að sjá að það er þónokkur sparnaður í því til lengri tíma litið," segir Ásgeir.

Læknar hafa barist fyrir skimuninni í 30 ár en þeim hefur ekki orðið ágengt. Ásgeir segir heilbrigðisyfirvöld erlendis vera komin langt á leið í þessum efnum en beinar aðgerðir hafi ekki hafa verið upp á borðinu hér á landi.

„Menn hafa verið að ýta þessu svolítið á undan sér, af ýmsum ástæðum, vilja bíða eftir frekari upplýsingum. Ég held að læknisfræðilegar upplýsingar séu nægar að það sé engin ástæða til þess að hika vegna þess að á hverju ári sem við bíðum missum við Íslendinga að óþörfu vegna krabbameins í ristli og endaþarmi," segir Ásgeir.


Tengdar fréttir

Ristilspeglun í staðinn fyrir koníak í afmælisgjöf

Það er betra að fá ristilspeglun í fimmtugsafmælisgjöf en koníaksflösku segir maður sem hefur barist við ristilkrabbamein í tæpan áratug. Minni líkur eru á lækningu ristilkrabba hjá þeim sem fara fyrst í rannsókn þegar einkenni eru komin í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×