Innlent

Vilja ekki að rekstur Fjöruhússins leggist af

Talsmenn fyrirtækisins Hótel Hellnar ehf. segjast harma fréttaflutning af málinu sem byggður hafi verið á einhliða málflutningi Ólínu og rekstraraðila Fjöruhússins.

Þeir taka það fram að það sé alls ekki vilji fyrirtækisins að starfsemi Fjöruhússins leggist af. Það sé allra hagur að viðunandi lausn finnist og bundið sé enda á deiluna.

Hótel Hellnar ehf. er þinglýstur eigandi jarðarinnar Brekkubæjar en undanfarið hefur fyrirtækið staðið í deilum við eiganda kaffihússins Fjöruhúsið, sem stendur á landi Brekkubæjar.

Í síðustu viku fjölluðu fjölmiðlar um málið og var þá greint frá mistökum Snæfellsbæjar sem leigði Ólínu Gunnlaugsdóttur, eiganda kaffihússins, land sem seinna kom í ljós að tilheyrði ekki sveitarfélaginu heldur eigendum jarðarinnar Brekkubæjar.

Í bréfi sem Hótel Hellnar ehf. sendi frá sér segir að allt frá því fyrirtækið tók við eignarhaldi Brekkubæjar haustið 2010 hafi ítrekað verið reynt að ná viðunandi samkomulagi við Ólínu um leigu á lóð undir Fjöruhúsið, með það fyrir augum að starfsemi kaffihússins yrði haldið áfram í óbreyttri mynd, en án árangurs.

Fyrirtækið hefur fallist á þá kröfu Ólínu að Fjöruhúsið sé hennar eign, þrátt fyrir að það hafi verið reist af þáverandi eiganda jarðarinnar Brekkubæjar, og ítreka að það sé ekki þeirra vilji að rekstur Fjöruhússins leggist af.


Tengdar fréttir

Stefna að því að ná sáttum

„Eigandi Hótels Hellna kom með sáttahug að máli við fjölskylduna. Það er stefnt að því að hittast um helgina og reyna að ná niðurstöðu. Vonandi verður hægt að gera sanngjarnan lóðarleigusamning,“ segir Ólína Gunnlaugsdóttir, eigandi Fjöruhússins, lítils kaffihúss á Hellnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×