Innlent

Tæpir þrír dagar til stefnu vegna 110% leiðarinnar

Vakin er athygli á því að þeir sem vilja óska eftir niðurfærslu veðskulda af íbúðalánum samkvæmt svokallaðri 110% leið þurfa að sækja um það fyrir 1. júlí næstkomandi. Frestur til að sækja um niðurfærslu veðskulda samkvæmt samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði rennur út 30. júní næstkomandi.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið vekur athygli á þessu í tilkynningu.

Í samkomulaginu sem stjórnvöld, Íbúðalánasjóður, Samtök fjármálafyrirtækja, Landssamtök lífeyrissjóða og Drómi hf. gerðu með sér og undirritað var 15. janúar á þessu ári er kveðið á um niðurfærslu veðskulda sem eru umfram 110% af verðmæti fasteignar að gefnum ákveðnum skilyrðum.

Niðurfærsla skulda getur numið allt að 4 milljónum króna hjá einstaklingi og allt að 7 milljónum króna hjá einstæðum foreldrum, sambýlisfólki og hjónum.

Lántakar sem eru með veðsetningu umfram 110% af verðmæti fasteignar, þrátt fyrir lækkun veðskulda um 4 eða 7 milljónir króna geta óskað eftir frekari niðurfærslu. Niðurfærslan getur í heild numið allt að 15 milljónum króna hjá einstaklingum og 30 milljónum króna hjá einstæðum foreldrum, sambýlisfólki og hjónum. Mörk niðurfellingar ráðast af 110% veðsetningarhlutfalli af verðmæti eigna og að greiðslubyrði umsækjanda af lánum, sem samkomulagið tekur til, fari ekki niðurfyrir 18% af brúttótekjum. Allir sem uppfylla skilyrði samkomulagsins eiga rétt á niðurfærslu veðskulda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×