Innlent

Þrír kjörnir í Heiðursráð Krabbameinsfélags Íslands

Nýju heiðursfélagarnir ásamt Vigdísi Finnbogadóttur
Nýju heiðursfélagarnir ásamt Vigdísi Finnbogadóttur Mynd/Krabbameinsfélagið
Þrír einstaklingar voru kjörnir í Heiðursráð á hátíðarfundi Krabbameinsfélagsins sem haldinn var í dag en félagið fagnar nú 60 ára afmæli sínu. Þetta er æðsta viðurkenning sem félagið veitir.

Það voru Guðrún Sigurjónsdóttir, Jóhannes Tómasson og Steinunn Friðriksdóttir sem kjörin voru í ráðið. Ásamt nýju heiðursfélögunum sitja níu eldri heiðursfélagar í ráðinu en fyrir nákvæmlega aldarfjórðungi var Vigdís Finnbogadóttir kjörin í Heiðursráðið fyrst allra.

Í ræðu sinni á hátíðarfundinum sagði Sigríður Snæbjörnsdóttir, formaður stjórnar félagsins, að árangur í leitarstarfi á Íslandi væri á heimsmælikvarða. Krabbameinsskrá félagsins er nú orðin ein sú vandaðasta sem til er.

Í fréttatilkynningu frá félaginu eru störf heiðursfélagana rakin:

Guðrún Sigurjónsdóttir var formaður Samhjálpar kvenna frá 2000 til 2010. Hún var í stjórn Krabbameinsfélags Íslands frá 2005 til 2011, síðast sem varaformaður.

Jóhannes Tómasson var í stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur frá 1996 til 2007, þar af formaður í 9 ár. Hann var í stjórn Krabbameinsfélags Íslands frá 1999 til 2007, lengst af sem varaformaður.

Steinunn Friðriksdóttir hefur verið formaður Styrks síðan 1989. Hún átti mikinn þátt í því að fyrstu íbúðirnar fyrir krabbameinssjúklinga og aðstandendur voru keyptar fyrir tuttugu árum og hefur alla tíð verið tengiliður Krabbameinsfélagsins við Landspítalann vegna þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×