Innlent

Veit ekki enn hver tilnefndi hann

Gunnlaugur og borgarstjórinn fóru í veiðitúr í Elliðaár eldsnemma í morgun.
Gunnlaugur og borgarstjórinn fóru í veiðitúr í Elliðaár eldsnemma í morgun.
Gunnlaugur Sigurðsson, sem var í morgun útnefndur Reykvíkingur ársins, segist hæstánægður með titilinn en hann hafi hinsvegar enn ekki hugmynd um það hver það var sem tilnefndi hann. Gunnlaugur var sóttur heim til sín eldsnemma í morgun og var þaðan haldið með reykvíkinginn í laxveiði í Elliðaánum þar sem hann veiddi fyrsta lax vorsins en þar með var sú hefð rofin að borgarstjóri renndi ávallt fyrstur fyrir lax við opnun ánna.



Jón Gnarr, borgarstjóri, fór með í veiðitúrinn og segir Gunnlaugur að vel hafi farið á með þeim félögum. Borgarstjórinn sé búinn að bjóða honum og frúnni í kaffi við tækiæri og segir Gunnlaugur að það boð muni þau hjónin eflaust þiggja.

Í ábendingu sem barst Reykjavíkurborg frá nágranna Gunnlaugs segir meðal annars að Gunnlaugur hafi haldið sameign og lóðum fjölbýlishúsanna við Fellismúla 13 og 15 hreinum í áratugi án þess að þiggja greiðslur. Gunnlaugur var afar hógvær þegar hann var spurður út í þessa eljusemi og sagðist einungis vilja að prýði væri af húsinu og lóð, það væri svo óttalega leiðinlegt að sjá það illa hirt.

Gunnlaugur segir samfélagið í húsinu ótrúlega gott og aðrir íbúar hafi aldrei látið sitt eftir liggja þegar það kæmi að viðhaldi á sameigninni. Hann ætli sér hinsvegar að komast að því hver nágranna hans hafi tekið upp á því að senda ábendingu til borgarinnar.

Reykvíkingurinn segir eiginkonu sína án efa vera stolta en hjónin hafi þó ekki rætt það enn hvort þau hyggist fagna útnefningunni sérstaklega. Hann ætlar hinsvegar í golf seinna í dag og segir að þó hann telji það ólíklegt, þá myndi hola í höggi náttúrulega alveg toppa daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×