Innlent

Reykvíkingur ársins renndi fyrir laxi í Elliðaánum

Gunnlaugur með fyrsta lax þessa árs.
Gunnlaugur með fyrsta lax þessa árs.
Gunnlaugur Sigurðsson, 79 ára fyrrverandi lögreglumaður, sem útnefndur hefur verið Reykvíkingur ársins, rennir fyrstur fyrir lax í Elliðaánum en veiði hófst þar nú klukkan sjö. Þar með er rofin sú hefð að borgarstjóri renni fyrstur manna fyrir lax í Elliðaánum við opnun þeirra á vorin. Gunnlaugur var ekki lengi að ná í fyrsta laxinn eða um tíu mínútur. Gunnlaugur hefur búið í sama fjölbýlishúsinu í Fellsmúla í 40 ár og þykir dómnefnd hann hafa sýnt fagurt fordæmi fyrir fyrir góða hirðu á öllu utandyra, án þess að þiggja greiðslur fyrir, og hæfni í mannlegum samskiptum við nágranna sína.

Í ábendingu sem barst frá nágranna Gunnlaugs til fjölda ára segir m.a. „Ég tel mig bera kennsl á mikilvægi hans og hæfni í mannlegum samskiptum almennt og ekki síst því mikilvæga hlutverki að vera partur af heildarsamfélagi sem fjölbýli verður að mótast af. Skilningi, umburðarlyndi og óeigingirni.

Gunnlaugur hefur alla burði til þess að vera í hópi fyrirmyndar Reykvíkinga, sem láta sér annt um umhverfi sitt og stuðla jafnframt að friðsælu sambýli fólks með ólíkar skoðanir og viðhorf eins og gengur og gerist í fjölbýlishúsum borgarinnar."

Í tilkynningu frá borginni segir að Gunnlaugur sé fjögurra barna faðir og eru börn hans uppkominn. Hann er fyrrverandi lögreglumaður. Þá segir ennfremur að fjölmargar góðar ábendingar hafi borist að Reykvíkingi ársins 2011.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×