Innlent

Nýr formaður UVG leggur áherslu á frið og jafnrétti

Snærós Sindradóttir var varaformaður UVG og tók sæti formanns sem steig til hliðar
Snærós Sindradóttir var varaformaður UVG og tók sæti formanns sem steig til hliðar Mynd Arnþór
Snærós Sindradóttir er nýr formaður Ungra vinstri grænna eftir að Guðrún Axfjörð Elínardóttir lét af embætti af persónulegum ástæðum. Snærós var varaformaður hreyfingarinnar og starfar hún sem formaður fram að næsta landsfundi sem haldinn verður í september. Snærós stefnir þá á að bjóða sig fram til áframhaldandi setu sem formaður en hún hefur áður starfað sem formaður Ungra vinstri grænna í Reykjavík. .

Snærós leggur í sínu starfi mesta áherslu á friðarmál og jafnréttismál, og finnst blasa við að aukið jafnrétti leiði til aukins friðar og öfugt.

Eins og alþjóð er kunnugt um hafa skapast miklar deilur innan Vinstri grænna vegna ýmissa mála, sér í lagi aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Snærós segir ungliða vissulega hafa skiptar skoðanir í þessum málum en þeir geti sest niður og rætt hlutina á skynsamlegan hátt. „Okkur hefur tekist mjög vel að tala af bróðurleik um þau mál sem við erum ósammála um. Jafnvel þó móðurflokknum hafi ekki tekist það," segir Snærós. Hún bendir á að UVG hafi staðið fyrir fundaröð um Evrópusambandið þar sem ungliðar gátu kynnt sér allar hliðar og fengið upplýsingar frá hlutlausum aðilum.

Hreyfingin fagnar tíu ára afmæli í ár og er því stefnt að stórum landsfundi með haustinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×