Viðskipti erlent

Berlusconi sektaður um 93 milljarða

Fininvest, eignarhaldsfélag Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu, hefur verið sektað um 560 milljónir evra eða um 93 milljarða kr.

Það var dómstóll í Mílanó sem komst að þessari niðurstöðu en sektin er tilkomin vegna mútugreiðslna Fininvest þegar félagið náði yfirráðum yfir útgáfufyrirtækinu Mondadori  frá fjölmiðlasamsteypunni CRI sem er höfuðkeppninautur fjölmiðlaveldis Berlusconi á Ítalíu.

Dómari lagði blessun sína yfir yfirtöku Fininvest á sínum tíma árið 1991 en sá dómari var síðar dæmdur fyrir spillingu í starfi. Ljóst var að hann lét múta sér til að komast að þessari niðurstöðu.

Í frétt um málið á BBC segir að Berlusconi hafi reynt að koma löggjöf í gegnum ítalska þingið sem hefði eyðilagt mál CRI gegn Fininvest. En jafnvel áköfustu stuðingsmenn forsætisráðherrans á þinginu gátu ekki kyngt þeirra löggjöf.

Árið 2009 taldi Berluconi að á tuttugu árum þar á undan hefði hann mætt 2.500 sinnum í dómssal í yfir 100 sakamálum sem höfðuð hafa verið gegn honum. Lögfræðikostnaður hans á þessu tímabili nemur um 200 milljónum evra eða um 33 milljörðum kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×