Enski boltinn

Aron Einar búinn að skrifa undir hjá Cardiff

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aron Einar með treyju Cardiff
Aron Einar með treyju Cardiff Mynd/www.cardiffcityfc.co.uk
Aron Einar Gunnarsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við Cardiff City. Aron Einar gekkst undir læknisskoðun í dag og gekk að henni lokinni frá samningnum. Cardiff á nú aðeins eftir að ganga frá greiðslu á uppeldisbótum til Coventry.

„Ég var að klára læknisskoðun og skrifa undir. Nú eiga bara Coventry og Cardiff eftir að ræða saman," sagði Aron í samtali við Vísi fyrir stundu.

„Ég er ekki kominn með númer. Það er ekki búið að úthluta númerum. En það er enginn númer sautján þannig að ég stefni á hana," segir Aron sem sat við stýrið á leiðinni til Coventry.

Aron Einar heldur til Spánar á morgun með liðsfélögum sínum þar sem liðið mun vera við æfingar og spila æfingaleik við Charlton.

„Það er vakning klukkan fjögur (í fyrramálið) þannig að ég kíki rétt heim til Coventry og næ í hreinar nærbuxur. Svo bruna ég aftur til Cardiff, upp á hótel og síðan beint upp í vél" sagði Aron í léttum dúr. Bíltúrinn ætti að taka rúmar fjórar klukkustundir en Aron sagði það ekkert mál.

Nánar verður rætt við Aron Einar í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×