Enski boltinn

Adebayor brjálaður út í forráðamenn Man. City

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Framherjinn Emmanuel Adebayor er enn í stríði við félag sitt, Man. City. Adebayor fær ekki að fara með liðinu til Bandaríkjanna í dag og hann segir að félagið hafi ekki þor til þess að segja honum beint út að hann sé ekki velkominn hjá félaginu.

Adebayor var lánaður til Real Madrid eftir áramót og Real er sagt vilja kaupa leikmanninn. Bið er þó eftir tilboði í leikmanninn.

Á meðan staðan er þannig bjóst Adebayor ekki við öðru en að fara með City til Bandaríkjanna.

"Þessi framkoma þeirra bæði særir mig og er móðgandi. Hún segir mikið um félagið Man. City," sagði Adebayor.

"Þetta félag vill vera það stærsta í heiminum en enginn hjá félaginu hagar sér á þann hátt. Það hefur enginn hjá félaginu dug í sér að tala við mig maður á mann. Ég fékk tölvupóst frá ritara sem sagði mér að mæta á æfingar 9. júlí.

"Svo frétti ég að liðið væri að fara til Bandaríkjanna degi fyrr. Það er því ljóst að félagið vill ekki sjá mig. Það gat samt enginn hringt í mig. Ég hef heyrt að það sama sé upp á teningnum hjá sex leikmönnum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×