Enski boltinn

Aron Einar semur við Cardiff á morgun

Hörður Magnússon skrifar
Aron Einar í leik með Coventry.
Aron Einar í leik með Coventry.
Aron Einar Gunnarsson skrifar undir þriggja ára samning við Cardiff City í ensku fyrstu deildinni í fótbolta á morgun. Fyrst fer hann í læknisskoðun í fyrramálið. Þetta staðfesti Aron Einar við íþróttadeild fyrir örfáum mínútum.

Coventry gamla félag Arons og Cardiff eiga eftir að semja um uppeldisbætur en það ætti ekki að verða vandamál.

Aron er aðeins 22 ára. Aron var í viðræðum við enska úrvalsdeildarliðið WBA en þær fjöruðu út. Aron sagði að þetta væri fínt stökk ekki of stórt og hann væri mjög sáttur.

Ef allt gengur eftir fer Aron með Cardiff í æfingaferð til Spánar á næstu dögum en þegar íþróttadeild náði tali af Aroni Einar þá var hann að ferðast til Cardiff með stóra ferðatösku með sér tilbúinn í Spánarferðina.

Stjóri Cardiff er Skotinn Malky Mackay en hann var áður hjá Watford.  Aron sagðist hafa talað við Heiðar Helguson sem var undir stjórn Mackay hjá Watford og gæfi honum góða umsögn.

Cardiff hefur verið í umspili fyrstu deildar undanfarin ár en aldrei náð að komast í úrvalsdeildina.

Aron er uppalinn hjá Þór á Akureyri þaðan fór hann til AZ Alkmaar en skrifaði undir samning við Coventry árið 2008 en sá samningur rann út á dögunum. Aron hefur leikið 23 A-landsleiki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×