Fótbolti

Inter heldur meistaratitlinum frá 2006

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Ég hata Inter“. Stuðningsmaður Juventus fyrir utan réttarhöldin í Napólí í maí síðastliðnum
„Ég hata Inter“. Stuðningsmaður Juventus fyrir utan réttarhöldin í Napólí í maí síðastliðnum Nordic Photos/AFP
Ítalska knattspyrnuliðið Inter Milan mun halda meistaratitlinum frá því tímabilið 2005-2006. Ítalska knattspyrnusambandið hafnaði beiðni Juventus um að félagið fengi titilinn til sín á nýjan leik. Titillinn var tekinn af Juventus eftir Calciopoli hneykslismálið sem skók ítalska knattspyrnu árið 2006.

Reuters fréttastofan greinir frá þessu. Auk Juventus voru AC Milan, Fiorentina, Lazio og Reggina fundin sek um að hafa reynt að hafa áhrif á dómgæslu í leikjum sínum. Nýverið var fyrrum stjórnarformaður Juventus, Luciano Moggi, dæmdur í lífstíðarbann frá afskiptum af knattspyrnu eftir réttarhöld í Napólí.

Juventus var einnig svipt meistaratitli sínum frá árinu 2004-2005 og fellt niður í Serie B. Í réttarhöldunum í Napólí komu fram sönnunargögn þess efnis að fleiri lið hefðu reynt að hafa áhrif á dómgæslu en áður var talið. Í kjölfarið vildi Juventus að ítalska knattspyrnusambandið endurskoðaði ákvörðun sína um titilinn 2006 en þeirri beiðni hefur nú verið hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×