Erlent

Evrópuþingið vill kynjakvóta

Evrópuþingið kallar eftir kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja innan Evrópusambandsins. Samkvæmt ályktun þingmanna á hlutfall kvenna í æðstu stöðum stærstu fyrirtækja innan ESB að ná 30% fyrir árið 2015 og 40% fyrir 2020. Ef þessum markmiðum verður ekki náð verður lagt fram lagafrumvarp til að ná þeim. Frá þessu er greint á vef Jafnréttisstofu.

Í greinargerð sem fylgir ályktuninni er vísað í norsku kynakvótalöggjöfina frá 2003 sem gott fordæmi og því er fagnað að í Frakklandi, Spáni og Hollandi hafi sambærileg skref verið tekin.

Hjá stærstu fyrirtækjum innan ESB er hlutfall kvenna í framkvæmdastjórastöðum 10% og meðal stjórnarformanna 3%. Miðað við núverandi þróun mun það taka 50 ár þar til að hlutfall kvenna verði að minnsta kosti 40% í stjórnum fyrirtækja í Evrópusambandinu.

Í ályktun Evrópuþingsins er tekið fram hversu mikilvægt er að auka hlutfall kvenna í fyrirtækjum til að tryggja framvindu í jafnréttismálum, en einnig er vakin athygli á hversu mikilvægt það er að virkja alla hæfileika til að tryggja hagvöxt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×