Innlent

Stjórnlagaráð: Ráðherra sitji í 8 ár og auðlindirnar séu þjóðarinnar

Stjórnlagaráð
Stjórnlagaráð Mynd/Gva
Enginn má gegna sama ráðherraembætti lengur en í átta ár og auðlindir eiga að vera ævarandi eign þjóðarinnar samkvæmt fyrstu drögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

Drög stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá hefjast á aðfararorðum en þar segir meðal annars að með henni eigi efla hamingju meðal Íslendinga og komandi kynslóða

Fyrstu þrjár greinar nýrrar stjórnarskrár fjalla um undirstöður stjórnskipunar landsins en þar er kveðið á um þrískiptingu ríkisvaldsins. Næst er kafli um mannréttindi sem hefst á orðunum: ,,Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn."

Þá kemur fram að í lögum megi kveða á um kirkjuskipan ríkisins en ekki tekið fram hver þjóðkirkjan skuli vera. Þ.e. hún njóti ekki lengur verndar stjórnarskrárinnar heldur verði hún ákveðin með almennum lögum.

Í 31. gr. kemur fram að auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, skulu vera sameiginlega og ævarandi eign þjóðarinnar. Að enginn geti fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja, eins og það er orðað í frumvarpsdrögunum. Þá er eignarrétturinn tryggður í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar en engu að síður segir að nýting eignarréttar skuli ekki ganga gegn almannahag.

Í kaflanum um Alþingi kemur fram að heimilt sé að skipta landinu í kjördæmi en að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu skuli engu að síður vega jafnt.

Þriðjungur þingmanna getur innan þriggja daga frá lokaafgreiðslu lagafrumvarps ákveðið að leggja það undir atkvæði allra kosningabærra manna. Þá geta 15% prósent kjósenda sömuleiðis krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Tvö prósent kjósenda geta jafnframt krafist þess að þingmál verði tekið fyrir á alþingi og fimmtán prósent geta krafist þess að frumvarp verði lagt fyrir Alþingi.

Í kaflanum um forseta Íslands segir að enginn megi sitja lengur en þrjú kjörtímabil en ráðherrar mega ekki sitja í sama embætti lengur en í átta ár.

Framundan eru þó umræður um frumvarpsdrögin en að því er fram kemur á vef stjórnlagaráðs má búast við því að frumvarpið taki einhverjum breytingum þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×