Erlent

Chavez kominn aftur til Kúbu

Hugo Chavez gekkst undir meðferð við krabbameini. Mynd/ AFP.
Hugo Chavez gekkst undir meðferð við krabbameini. Mynd/ AFP.
Hugo Chavez, forseti Venesúela, er aftur kominn til Kúbu til að gangast undir frekari meðferð við krabbameini. Chavez ræðir opinskátt um veikindi sín í fjölmiðlum og tók meðal annars lyfin sín í beinni sjónvarpsútsendingu.

Læknar sem sinnt höfðu Chavez fundu fleiri illkynja frumur eftir að hann gekkst undir skurðaðgerð á Kúbu í júní til að fjarlægja æxli vegna ristilkrabbameins, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

Forsetinn hefur nú snúið aftur til Kúbu í frekari meðferð. Krabbameinsmeðferðin sem forsetinn undirgengst hefst í dag, en Chavez tilkynnti að hann yrði frá í nokkra daga vegna hennar. Forsetinn hefur framselt hluta af forsetavaldi til ráðherra í ríkisstjórn Venesúela í fjarveru sinni en hefur ekki orðið við kröfum stjórnarandstöðunnar í Venesúaela um að afhenda fullt vald forsetaembættisins tímabundið meðan hann er frá vegna veikinda.

Chavez, sem af mörgum er talinn afar litríkur, hefur rætt mjög opinskátt um veikindi sín í fjölmiðlum heimalandsins og á ríkisstjórnarfundi á fimmtudag tók hann krabbameinslyf í beinni sjónvarpsútsendingu. Í gær sagði hann í viðtali áður en hann flaug frá Caracas til Kúbu að þetta væri ekki tíminn til að deyja, heldur tíminn til að lifa. Forsetinn sagðist ekki vera að kveðja og sagðist mundu snúa heilbrigðari frá Kúbu að lokinni meðferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×